Innlent

"Hefur aldrei komið til Stokkseyrar“

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Stefáns Loga Sívarssonar segir hann hafa verið yfirheyrðan vegna gruns um aðild að tveimur málum. Hann neiti alfarið sök.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Stefáns Loga Sívarssonar segir hann hafa verið yfirheyrðan vegna gruns um aðild að tveimur málum. Hann neiti alfarið sök.
Stefán Logi Sívarsson, sem grunaður er um aðild að líkamsárás og frelsissviptingu ungs manns, var yfirheyrður af lögreglu á laugardag.

Samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, lögmanni Stefáns, neitar hann allri sök á málinu. Vilhjálmur segir jafnframt að Stefán Logi hafi verið yfirheyrður vegna tveggja mála og að skýrslutakan hafi staðið yfir í um það bil tíu mínútur.

Tekin hafi verið skýrsla annars vegar vegna Stokkseyrarmálsins svokallaða, þar sem grunur leikur á að manni hafi verið haldið nauðugum og hann sætt hrottalegu ofbeldi, en hins vegar vegna máls er varðar líkamsáras í Breiðholti. Þá þvertekur Vilhjálmur fyrir að um fleiri mál sé að ræða eins og fram hafi komið í fjölmiðlum.

Hann segir meinta aðild Stefáns að málunum alfarið byggða á getgátum lögreglu. Ekki liggi fyrir kæra frá brotaþolum og því hafi ekki verið tekin af þeim lögregluskýrsla. Í opnu bréfi Vilhjálms til fjölmiðla segir: „Í fjölmiðlum hefur verið fullyrt að Stefán Logi hafi pyntað mann á Stokkseyri og að hann sé höfuðpaurinn í málinu. Þetta er ekki í samræmi við það sem kom fram hjá lögreglu í ofangreindri skýrslutöku eða í gæsluvarðhaldskröfu lögreglu. Rétt er að taka fram að Stefán Logi hefur aldrei komið til Stokkseyrar.“

Stefán Logi var handtekinn við sumarbústað í Miðhúsaskógi í Biskupstungum á föstudag og var á laugardag úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×