Innlent

Framsókn tekur fylgi frá öllum

Brjánn Jónasson skrifar
Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn hefur helmingast frá því í janúar. Tæp 18 prósent styðja flokkinn nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Framsóknarflokkurinn er meira en tvöfalt stærri. Stjórnarflokkarnir eru með samanlagt 15 prós

Framsóknarflokkurinn tekur fylgi af öllum hinum gömlu stjórnmálaflokkunum, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var í gær og fyrradag. Flokkurinn er í stórsókn og myndu tveir af hverjum fimm kjósendum, 40 prósent, styðja hann samkvæmt könnuninni.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur beðið afhroð og helmingast frá því í janúar. Um 17,8 prósent styðja flokkinn nú, samanborið við nærri 38 prósent þá.

Sveiflurnar á fylgi flokkanna mælast mun meiri í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 en í síðustu könnunum annarra könnunarfyrirtækja. Möguleg skýring á þeim mun gæti verið að kannanir Capacent og MMR eru gerðar á mun lengri tíma en könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þær mæla því fylgið á ákveðnu tímabili meðan könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 mælir stöðuna í gær og fyrradag.

Samfylkingin og Vinstri græn tapa bæði fylgi. Samfylkingin er komin undir tíu prósent og hefur stuðningur við flokkinn helmingast frá könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 um miðjan janúar.

Vinstri græn mælast nú með stuðning 5,6 prósenta, hættulega nærri fimm prósenta markinu sem flokkar þurfa að ná til að koma mönnum á þing.

Björt framtíð og Píratar eru einu nýju framboðin sem myndu ná mönnum á þing yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Björt framtíð tapar fylgi frá síðustu könnun og mælist nú með stuðning 8,3 prósenta. Þá fengi flokkurinn samkvæmt könnuninni fimm þingmenn.

Píratar virðast á góðri siglingu og mælast nú með 5,6 prósenta fylgi. Það myndi skila flokknum fjórum þingmönnum yrðu þetta niðurstöður kosninga. Önnur ný framboð mælast með fylgi undir fimm prósentum og ná ekki mönnum á þing miðað við þá niðurstöðu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.