Erlent

Netanjahú stendur verr að vígi á þingi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Lagði leið sína að grátmúrnum í Jerúsalem á kosningadeginum.	nordicphotos/AFP
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Lagði leið sína að grátmúrnum í Jerúsalem á kosningadeginum. nordicphotos/AFP
Samkvæmt útgönguspám að loknum þingkosningum í Ísrael í gærkvöld fær kosningabandalag stjórnarflokkanna Likud og Yishrael Beiteinu 31 þingsæti á þingi. Þetta er mikið fylgistap því á síðasta kjörtímabili höfðu þessir tveir flokkar samtals 42 sæti á 120 manna þingi landsins.

Samtals virtust þó stjórnarflokkarnir allir ætla að halda naumum meirihluta, eða 61 þingsæti á móti 59 þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þannig að hafi útgönguspárnar staðist getur Benjamín Netanjahú forsætisráðherra verið áfram við völd með stuðningi nokkurra smærri harðlínuflokka enn lengra til hægri.

Nýr miðjuflokkur, Yesh Atid, vann þó stærstan sigur í kosningunum og verður næststærsti flokkurinn á þingi með 18 til 19 þingsæti. Lapid skýrði frá því í byrjun síðasta árs að hann hygðist stofna stjórnmálaflokk. Hann vill stokka upp í ísraelskum stjórnmálum og samfélagi, útrýma spillingu og breyta forgangsröðun. Hann styður stofnun ríkis Palestínumanna en vill engu að síður tryggja öryggi Ísraels og halda stórum byggðum landtökumanna á herteknu svæðunum.

Verkamannaflokknum er spáð sautján þingsætum og verður þriðji stærsti flokkurinn.

Smærri flokkar eru Bayit Yehudi með 12 þingsæti, Shas-flokkur heittrúaðra gyðinga með 11 þingsæti, Flokkur Tzipi Livni með 7 þingsæti, Meretz sömuleiðis með 7 þingsæti og loks flokkur lögmálsgyðinga með 6 þingsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×