Guðlaug kveðst hafa sent rúmlega 30 cm háa tillögu eða „prótótýpu“ að verkinu sínu út en fullunnið yrði verkið um tveir metrar. „Í tillögunni er bara keramik og gler en ef verkið yrði unnið í fullri stærð þyrfti að setja það á grind,“ lýsir hún.

Til þessa hefur sýningin verið haldin árlega en Guðlaug segir hana vera að breytast í tvíæring með ákveðið þema hverju sinni. Í þetta sinn var þemað „keramik og umhverfi“. „Nú var líka í fyrsta sinn talsvert um að hópar sendu inn verk en það hentaði mér ekki þar sem ég vinn ein,“ segir hún.
Guðlaug er Rangæingur, ólst upp að Steinum undir Eyjafjöllum, en er fyrir löngu flutt í bæinn. Hún útskrifaðist úr mótunardeild Myndlistaskólans í Reykjavík árið 2010 og hafði þá lokið námi í hönnun við Tækniskólann. Auk sýninganna á Spáni hefur hún haldið tvær einkasýningar hér á landi, aðra hjá Handverki og hönnun á Skörinni og hina í Þjóðmenningarhúsinu. Hún selur muni sína í Listasafni Íslands, Þjóðmenningarhúsinu, Landnámssetrinu í Borgarnesi og Borgarhóli á Seyðisfirði.