Innlent

Glæsilegur njósnabíll

Sögufrægur bíll sem tengist njósnastarfsemi Þjóðverja á Íslandi í seinni heimsstyrjöld er nú til sýnis hér á landi. Talið er að bíllinn hafi verið notaður til að senda skilaboð til þýskra kafbáta á Atlantshafi.

Mercedes Benz klúbburinn á Íslandi fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Klúbburinn hefur blásið til bílasýningar í sal Öskju við Krókháls um helgina en þar má sjá glæsilega Mercedes-Benz bíla af öllum stærðum og gerðum þar á meðal Mercedes-Benz 290B árgerð 1937. Werner Gerlach, ræðismaður Þýskalands á Íslandi var með bílinn til umráða.

Bíllinn er talinn hafa verið njósnabíll Þjóðverja hér á landi í síðari heimstyrjöldinni. Bíllinn er uppgerður og allur sem nýr og er í gráum litum þýska flughersins Luftwaffe. Ekki hafa fundist í honum nein framleiðslunúmer, en það staðfestir líklega að bíllinn hafi verið sérpantaður af njósnadeild þýska hersins.

Árið 1969 fannst loftnet í blæju bílsins sem bendir til þess að hann hafi verið notaður sem færanleg talstöð. Bíllinn var eigu Íslendinga allt til ársins 1972 en var þá seldur til Bandaríkjanna. Hann var keyptur aftur til Íslands árið 2007.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×