Innlent

Harry prins hæstánægður með að Íslandsferðin spurðist ekki út

Kristján Hjálmarsson skrifar
Sjávarfossinn í Langá. Harry prins fékk fimm laxa og missti nokkra fiska í ánni.
Sjávarfossinn í Langá. Harry prins fékk fimm laxa og missti nokkra fiska í ánni.
Harry Bretaprins var staddur hér á landi fyrir aðeins nokkrum dögum síðan og var þá við veiði í Langá. Harry, sem er fjórði í erfðaröðinni að bresku krúnunni, var í tvo daga við veiðar í ánni og veiddi fimm laxa og missti nokkra, samkvæmt heimildum Vísis. 

Harry og fylgdarlið flaug með Icelandair hingað til lands og fjölmiðlafulltrúi hans skoðaði reglulega íslenska fjölmiðla og var himinlifandi með að koma hans hingað til lands hefði ekki spurst út. Samkvæmt heimildum Vísis naut hann dvalarinnar hér á landi og spilaði meðal annars rugby á túninu við veiðihúsið í Langá.

Þetta var ekki fyrsta ferð prinsins til landsins í ár. Hann kom hér fyrr í sumar og var við æfingar fyrir Suðurheimsskautsleiðangur. Með honum í för í það skipti var leikarinn Dominic West, úr þáttunum The Wire.

Æfingarnar fóru fram á Langjökli en Harry kemur til með að fara í leiðangur um Suðurheimskautið í nóvember.

Eins og margir eflaust vita kom faðir prinsins, Karl, margoft til landsins á sínum yngri árum. Hann dvaldi yfirleitt í Hofsá við veiðar.

Bjarni Júlíusson, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, vildi ekki tjá sig um veiðiferð prinsins. Hann sagði þó að Karl hefði komið hingað til lands á sínum tíma, veitt í Hofsá og einu sinni í Kjarrá. 

"Afi Harrys, Filipus drottningarmaður, veiddi einu sinni svo ég viti til í Norðurá," segir Bjarni. "Ef þetta reynist rétt með Harry er hann þriðji ættliðurinn sem veiðir á Íslandi."

Þá hefur Vísir heimildir fyrir því að prinsinn hafi hug á því að koma aftur til landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×