Enski boltinn

Þriðji sigur Southampton í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Southampton er svo gott sem búið að tryggja sér sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni með 2-0 sigri á Reading á útivelli í dag. Vonir Reading um að bjarga sér dvínuðu að sama skapi verulega.

Jay Rodriguez skoraði fyrra markið á 34. mínútu. Boltinn barst inn fyrir varnarlínu Reading og Rodriguez komst í boltann á undan markverðinum Adam Federici.

Varamaðurinn Adam Lallana jók svo muninn í 2-0 á 72. mínútu, eftir laglega sókn. Rodriguez átti stoðsendinguna og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Lallana.

Sigurinn var sanngjarn og Reading náði sjaldan að ógna marki gestanna. Nýráðinn stjóri liðsins, Nigel Adkins, á fyrir höndum afar erfiðan fallslag en Reading er í neðsta sæti deildarinnar með 23 stig og er sjö stigum frá öruggu sæti. Liðið á sex leiki eftir af tímabilinu.

Southampton er nú í ellefta sæti með 37 stig en þetta var þriðji sigur liðsins í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×