Innlent

200 vísindastörf skapast með 25 milljarða fjárfestingu í Vatnsmýri

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lyfjafyrirtækið Alvogen ætlar að reisa um ellefu þúsund fermetra Hátækni- og lyfjaþróunarsetur í Vatnsmýri í samvinnu við Vísindagarða Háskóla Íslands. Um er að ræða fjárfestingu upp á 25 milljarða króna sem skapar 200 störf í hátækni- og vísindageiranum.

Um er að ræða eina stærstu einstöku fjárfestinguna á Íslandi frá bankahruni. Húsnæðið mun rísa á þessu svæði hér í Vatnsmýrinni (sjá myndskeið) við hlið nýju stúdentagarðanna, skammt frá húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar.

Til að setja bygginguna í samhengi þá verður nýtt húsnæði Alvogen 11 þúsund fermetrar en húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar, sem ÍE leigir nú af Vísindagörðum, er 15 þúsund fermetrar. Borgarráð samþykkti að veita Vísindagörðum lóðina í dag en áður hafði verið gengið frá samkomulagi við Alvogen vegna verkefnisins. Alvogen er stýrt af og að hluta í eigu Róberts Wessman, sem áður stýrði Actavis.

Í Hátæknisetri Alvogen er fyrirhugað að þróa og framleiða samheitalyfjaútgáfu líftæknilyfja sem eru nú þegar á markaði og markaðssetja þau þegar einkaleyfi þeirra renna út. Lyfin eru öll í hópi söluhæstu lyfja í heiminum í dag og seljast fyrir tugi milljarða bandaríkjadala á ári, að sögn Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar. „Undanfarna mánuði hefur Alvogen lagt mat á ákjósanlega staðsetningu fyrir starfsemina og þykir Ísland nú ákjósanlegasti staðurinn fyrir byggingu Hátækniseturs,“ segir Bjarni. 

Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands, segir að 200 störf muni skapast í nýju húsnæði Alvogen þegar setrið verður komið í fullan rekstur.

Hvenær sjáum við fram á að þetta rísi? „Það er reiknað með því að framkvæmdir hefjist strax, eða innan fárra vikna og húsnæðið verði tilbúið til notkunar innan tveggja ára,“ segir Eiríkur

Alvogen mun reisa á lóð ykkar, lyfjaþróunarsetur í samstarfi við ykkur? „Já, Vísindagarðar eru með lóðarréttinn og Alvogen byggir húsið á eigin reikning og mun eiga húsið og reka það. Þetta er liður í því að byggja hér upp samfélag hátæknifyrirtækja og Háskólinn verður einnig með aðsetur á lóðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×