„Álverskrummarnir" eru búnir að koma sér fyrir á stigapalli á uppgönguleið á áfyllingarstöð kerskála Norðuráls og heilsast vel. Um er að ræða þrjá unga sem klöktust út snemma í maí.
Foreldrarnir eyða megninu af deginum í að fóðra ungana sem liggja í laupinum á stigapallinum.
Elmar Snorrason, starfsmaður álversins, segir að starfsmenn Norðuráls hafi tekið eftir ungunum fyrstu helgina í maí. „Nú eru ungarnir að verða 4 vikna gamlir og lítið pláss eftir í laupnum, þeir eru farnir að standa upp, breiða út vængina og snyrta sig sjálfir.“
Elmar sá leik á borði og kom fyrir myndavél við laupinn sem hefur fylgst með uppeldi hrafnanna seinustu vikurnar. Myndböndin má sjá á Youtube síðu Elmars.