Innlent

Framsóknarmenn ánægðastir með tillögur um skuldaniðurfellingu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/GVA
Fylgi við ríkisstjórnarflokkana minnkar og flokkarnir fengju samanlagt 43,4 prósent fylgi ef gengið yrði til þingkosninga nú.

Þetta er niðurstaða skoðunarkönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Könnunin var gerð í byrjun vikunnar eftir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum voru kynntar.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 23,3% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 20,1%. Þetta er nærri átta prósentustigum minna en flokkarnir fengu í þingkosningum í apríl sl. En þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 26,7% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 24,4%.

Stjórnarandstöðuflokkarnir bæta allir við sig fylgi. Björt framtíð bætir mestu við sig og fer úr 8,2 prósentum í 13,7 prósent.

Í könnunni kemur fram að ánægja kjósenda stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, með tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingar skulda er mun meiri en þeirra sem myndu kjósa aðra flokka.

Kjósendur Framsóknarflokksins eru ánægðastir með tillögur ríkisstjórnarinnar en um 48 prósent kjósenda flokksins eru mjög ánægðir og 44 prósent eru frekar ánægðir. Aðeins 2 prósent þeirra eru mjög óánægð með tillögurnar. 34 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru mjög ánægðir og 47 prósent þeirra eru frekar ánægðir.

34 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar eru mjög eða frekar ánægðir. 20 prósent kjósenda Samfylkingarinnar og 18 prósent kjósenda VG eru mjög eða frekar ánægðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×