Innlent

Gangbraut í litum samkynhneigðra við Laugardalshöll

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Gangbrautin við Laugardalshöll er í öllum regnbogans litum eins og sjá má.
Gangbrautin við Laugardalshöll er í öllum regnbogans litum eins og sjá má. Mynd/Þorbjörn Þórðarson
Gangbraut við Laugardalshöll er óvenju litrík um þessar mundir. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa fest niður planka í litum regnbogans og munu plankarnir vera á gangbrautinni til frambúðar.

Umhverfis- og samgöngsvið Reykjavíkurborgar sem stýrir framkvæmdinni en um er að ræða sérstaka „Gleðibraut“ eins og upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, Bjarni Brynjólfsson, komst að orði þegar Vísir spurði hann út í málið.

Hátíð vonar fer fram á Laugardalshöll um helgina. Aðalræðurmaður hátíðarinnar er Franklin Graham en hann þekktur fyrir andstöðu sína á hjónaböndum samkynhneigðra. Það vekur því athygli litir gangbrautarinnar séu í regnbogalitunum sem eru einkennislitir samkynhneigðra.

Það liggur því beinast við að spyrja hvort að borgaryfirvöld séu þar með að mótmæla Hátíð vonar sem fram fer um helgina? „Nei, þetta var ekki sett niður til að mótmæla Hátíð vonar en við erum auðvitað að vekja athygli á réttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er einnig sett niður til að auka líf og lit í borginni,“ segir Bjarni Brynjólfsson. „Þetta er íþróttasvæði borgarinnar og við höfum áður sett upp gangbrautir í svipuðum stíl. Ég held að þetta sé komið til að vera.“

Mynd/Þorbjörn Þórðarson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×