Innlent

Annþór og Börkur ákærðir fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða

VG skrifar
Annþór og Börkur hafa verið tveir einir á öryggisgangi á Litla Hrauni í heilt ár.
Annþór og Börkur hafa verið tveir einir á öryggisgangi á Litla Hrauni í heilt ár. mynd / Facebook

Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson eru ákærðir fyrir stórfellda og hættulega líkamsárás sem leiddi til dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni í maí á síðasta ári.

Þeim er gefið að sök að hafa veist að Sigurði Hólm Sigurðssyni með ofbeldi þann 17. maí á síðasta ári og eiga áverkarnir að hafa leitt til andláts Sigurðar. Samkvæmt samtali við lögmann annars sakborningsins voru þeim birtar ákærur síðasta mánudag.

Rannsókn á málinu hefur verið gríðarlega flókin, meðal annars voru tveir prófessorar í sálfræði dómkvaddir til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum. Prófessor í verkfræði við HÍ var fenginn til að rannsaka þá krafta sem þarf til að valda þeim áverkum sem voru á líkinu.

Sérstakar mælingar voru gerðar á hljóðburði innan fangelsins og möguleikum vitna á að heyra það sem talið er hafa farið fram innan veggja fangaklefa hins látna. 

Nákvæm eftirlíking klefans var byggð í fullri stærð í húsnæði Lögregluskóla ríkisins þar sem tæknideild lögreglu á höfuðborgarsvæðisins sviðsetti mögulega atburðarás auk þess sem grunuðum var gefinn kostur á að lýsa atvikum í klefanum þar.

Málið er búið að vera í rannsókn í rúmt ár auk þess sem Annþór og Börkur hafa verið tveir einir á sérstökum öryggisgangi í ár. Báðir neita þeir staðfastlega sök í málinu sem verður þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands næstkomandi þriðjudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×