Innlent

Fækka malarköflunum til Patreksfjarðar um helming

Kristján Már Unnarsson skrifar

Stærsta verk sem Vegagerðin hefur ráðist í eftir hrun, þverun tveggja fjarða á Vestfjörðum, er komið í fullan gang. Þegar verkinu lýkur fækkar síðustu malarköflunum milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur um helming. Vegfarendur losna þarna við fjórar einbreiðar brýr, snjóþunga fjarðabotna, krappar beygjur, blindhæðir og síðast en ekki síst: 24 kílómetra langan malarveg.

Í botni Kjálkafjarðar. Einbreiðar brýr, blindhæðir og krappar beygjur einkenna gamla veginn.

Það er reyndar komið rúmt ár frá því verktakinn Suðurverk hófst handa, byrjað var rólega, en nú er búið að setja allt á fulla ferð í þessu þriggja milljarða króna verki. Um 40 starfsmenn Suðurverks og ÞG-verktaka eru að jafnaði á vinnusvæðinu, sem er furðu einangrað eftir að sveitabyggðin í Múlahreppi fór í eyði fyrir um 40 árum. Það er svo afskekkt að verktakarnir þurfa að nota ljósavélar til að lýsa upp og kynda vinnubúðirnar enda eru 30 kílómetrar í næsta rafmagnsstaur, að sögn Gísla Eysteinssonar, verkstjóra hjá Suðurverki.

Suðurverk er með um 20 þungavinnuvélar í verkinu,

Þeir eru með um tuttugu þungavinnuvélar að störfum og einn pramma, til að flytja efni í uppfyllingar. Bráðabirgðafylling er komin út á hálfan Kjálkafjörð. Þar er byrjað að steypa brúarstöpla en brýrnar sem þvera munu firðina tvo verða hafðar nægilega langar til að tryggja eðlileg vatnaskipti milli flóðs og fjöru.

Sennilega eru þó engir sem gleðjast meira yfir framvindu verksins en Vestfirðingar sem eftir tvö ár eða svo sjá fram á að losna við leiðinda malarveg en fá í staðinn breiðan og beinan 16 kílómetra malbiksveg og átta kílómetra styttingu. Og þegar Gísli verkstjóri er spurður hvort þeir ljúki verkinu á tilskyldum tíma, árið 2015, kveðst hann ekki í neinum vafa um það, annars væri hann hræddur um að fleiri skriður færu af stað.


Tengdar fréttir

Kjálkafjarðarógnin kallar á breytingu vegarins

Vegagerðin neyðist til að endurhanna Vestfjarðaveg um skriðuna miklu sem féll í Kjálkafirði í vor. Fjarlægja þarf gríðarlegt efnismagn úr fjallshlíðinni til að draga úr þeirri ógn sem hún veldur vegfarendum.

Heppni að enginn slasaðist í Kjálkafirði

Mildi þykir að ekki urðu slys á mönnum þegar stór skriða féll á Vestfjarðaveg í Kjálkafirði í dag. Stór grafa frá fyrirtækinu Suðurverki, sem þarna vinnur að vegagerð, lenti í skriðunni, en gröfustjórinn slapp án meiðsla. "Það var guðsmildi að ekki fór verr," sagði Gísli Eysteinsson, verkstjóri hjá Suðurverki. Undir það tekur Þórhallur Gestsson, starfsmaður Suðurverks: "Það var heppni að ekki varð slys á fólki," segir Þórhallur, sem tók meðfylgjandi mynd. Skriðan er rétt fyrir innan Litlanes og féll á svæði þar sem nokkrar vinnuvélar hafa verið að störfum. Skriðan fór upp á vélarhlíf Caterpillar-gröfu en gröfustjórinn hafði áður tekið eftir sprungu í jarðveginum. Gísli áætlar að skriðan sé um 70 metra breið og 30 metra þykk. Hún lokar Vestfjarðavegi en þetta er aðalleiðin til Patreksfjarðar og annarra byggða á sunnaverðum Vestfjörðum. Vegagerðin telur ólíklegt að náist að opna veginn fyrr en í fyrsta lagi í fyrramálið. Vegna þessa fer Breiðafjarðarferjan Baldur aukaferð í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×