Innlent

Heppni að enginn slasaðist í Kjálkafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mildi þykir að ekki urðu slys á mönnum þegar stór skriða féll á Vestfjarðaveg í Kjálkafirði í dag. Stór grafa frá fyrirtækinu Suðurverki, sem þarna vinnur að vegagerð, lenti í skriðunni, en gröfustjórinn slapp án meiðsla.

„Það var guðsmildi að ekki fór verr," sagði Gísli Eysteinsson, verkstjóri hjá Suðurverki. Undir það tekur Þórhallur Gestsson, starfsmaður Suðurverks: „Það var heppni að ekki varð slys á fólki," segir Þórhallur, sem tók meðfylgjandi myndir.

Skriðan er rétt fyrir innan Litlanes og féll á svæði þar sem nokkrar vinnuvélar hafa verið að störfum. Skriðan fór upp á vélarhlíf Caterpillar-gröfu en gröfustjórinn hafði áður tekið eftir sprungu í jarðveginum.

Gísli áætlar að skriðan sé um 70 metra breið og 30 metra þykk. Hún lokar Vestfjarðavegi en þetta er aðalleiðin til Patreksfjarðar og annarra byggða á sunnaverðum Vestfjörðum.

Vinnuvélar Suðurverks sjást handan skriðunnar.Mynd/Þórhallur Gestsson.
Vegagerðin telur ólíklegt að náist að opna veginn fyrr en í fyrsta lagi í fyrramálið. Vegna þessa fer Breiðafjarðarferjan Baldur aukaferð í fyrramálið, kl. 09:00 frá Stykkishólmi og kl. 12:00 frá Brjánslæk.

Vilji menn aka lengri leiðina, um Ísafjörð og Djúp, bendir Vegagerðin á að fært er um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×