Innlent

Ábendingum um látna höfuðpaurinn ekki fylgt eftir

Stjórnandi rannsóknar í stóra amfetamínmálinu sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að ábendingu um að Ársæll Snorrason hefði staðið á bak við innflutning á tugum kílóa af amfetamíni hefði ekki verið fylgt vel eftir. Ástæðan sem hann gaf upp var einfaldlega sú að lögreglan hafði ekki nægilega miklar sannanir um aðkomu hans að málinu.

Þetta er meðal þess sem fram kom í skýrslutökum  í morgun í stóra amfetamínmálinu þar sem sjö eru ákærðir fyrir að hafa komi að innflutningi á 19 kílóum af amfetamíni og 1,7 lítra af amfetamínbasa.

Óvænt uppákoma varð fyrir rétti í gær þegar einn hinna ákærðu, Jón Baldur Valdimarsson, upplýsti að Ársæll Snorrason væri höfuðpaurinn í fíkniefnamálinu, en hann er að öllu jöfnu kallaður ónefndur aðili í ákæruskjali. Bróðir Jóns, Jónas Fannar, lýsti einnig yfir því sama, þó rannsóknarstjóri mundi ekki sérstaklega eftir því. Bræðurnir ásamt Símoni Páli Jónssyni eru ákærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutninginn en þeir neita því allir.

Rannsóknarstjórnandinn segir lögregluna hafa kannað aðkomu Ársæls að málinu að einhverju leytinu til. Þannig hafi meðal annars komið í ljós að Ársæll var staddur í Danmörku á sama tíma.

Ársæll lést fyrir nokkrum vikum síðan, en Jónas Fannar sagði fyrir dómi í gær að hann hefði ekki viljað upplýsa um nafn Ársæls fyrr af ótta um öryggi fjölskyldu sinnar. Hann taldi það óhætt í dag í ljósi aðstæðna.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram í dag, en hún hófst í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×