Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi menntamálaráðherra, og Halldóra Björt Ewen, kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, verða teknar formlega inn í Hið íslenska töframannagildi, fyrstar kvenna.
„Ég veit ekki hvað ég á að segja. Við förum á fund þann 29. maí þar sem ég geri ráð fyrir því að við verðum teknar formlega inn,“ segir Halldóra, en þær vinkonur byrjuðu að töfra á háskólaárum sínum og hafa haldið því við reglulega.
Halldóra viðurkennir að pólitískur ferill Katrínar hafi vissulega sett strik í reikninginn, en þó hafi þær komið fram á árshátíð Stjórnarráðsins árið 2009 og segir hún það hafa verið hápunkt ferilsins.
Aðpurð hvort hún hafi sagað ráðherra í sundur segir Halldóra svo ekki vera. „Nei, en ráðherra hefur sagað mig í sundur. Svo höfum við verið með áhættuatriði þar sem ég fer inn í töfrakassa og ráðherra hefur stungið í gegnum mig átta töfrasverðum. Svo gubbum við líka eggjum og látum fótleggi hverfa.“
Halldóra segir það heiður að vera tekin inn í töframannagildið en vill sem minnst segja um það hvernig vinkonurnar lærðu töfrabrögðin.
„Stundum á maður greinilega að sleppa því að svara símanum,“ sagði Katrín skellihlæjandi þegar Vísir bar töfrabrögðin upp á hana.
„En jú, ég get staðfest þetta. Ég sagaði hana í sundur.“
Ráðherra sagaði vinkonu sína í sundur
