Innlent

Mesta tap beggja stjórnarflokkanna í Suðurkjördæmi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, var bæjarstjóri í Garðinum þegar framkvæmdir hófust við álverið í Helguvík.
Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, var bæjarstjóri í Garðinum þegar framkvæmdir hófust við álverið í Helguvík.
Fylgistap Vinstri grænna í Suðurkjördæmi reyndist mesta afhroð alþingiskosninganna um síðustu helgi. Þessi útkoma VG í þessu eina kjördæmi sker sig úr og vekur ekki síst athygli í ljósi þess að það var ekki VG heldur Samfylkingin sem tapaði hlutfallega mest allra flokka yfir landið.

Samfylkingin fékk í kosningunum yfir landið 43 prósent af fyrra fylgi meðan Vinstri grænir fengu 50 prósent af fyrra fylgi yfir landið. Mesta tap Samfylkingarinnar í einstökum kjördæmum varð einnig í Suðurkjördæmi, þar sem flokkurinn fékk aðeins 36 prósent af fyrra fylgi.

Tap Vinstri grænna í Suðurkjördæmi reyndist enn meira, þar fékk VG aðeins 34 prósent af fyrra fylgi, eða 5,9 prósent atkvæða, miðað við 17,1 prósent árið 2009. Þriðja mesta tap kosninganna varð hjá VG í Norðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn fékk 37 prósent af fyrra fylgi.

Umhugsunarvert er að báðir ríkisstjórnarflokkarnir skuli verða fyrir mesta fylgistapi sínu í Suðurkjördæmi. Kjördæmið hefur meðal annars þá sérstöðu að þar eru Suðurnes, þar sem atvinnuleysi hefur verið mest á landinu, og í kjördæminu eru einnig umdeildustu verkefnin sem tekist var á um í umræðum um stóriðju og rammaáætlun; Helguvík, Þjórsárvirkjanir og jarðhitasvæði Reykjanesfjallgarðs.

Atkvæðafjöldi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi féll úr 7.541 atkvæði síðast niður í 2.734 atkvæði nú. Atkvæðafjöldi Vinstri grænna féll úr 4.615 atkvæðum niður í 1.581 atkvæði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×