Innlent

Tökum á „Reykjavik“ frestað

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Það er Michael Douglas sem leikur Reagan og Christoph Waltz sem leikur Gorbachev, en hinn sögulegi leiðtogafundur fór fram í Höfða 11.-12. október 1986.
Það er Michael Douglas sem leikur Reagan og Christoph Waltz sem leikur Gorbachev, en hinn sögulegi leiðtogafundur fór fram í Höfða 11.-12. október 1986.
Nú er ljóst að tökum á kvikmyndinni „Reykjavik", sem hefjast áttu hér á landi í mars, hefur verið frestað.

Myndin segir frá sögulegum leiðtogafundi Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Michail Gorbachev, forseta Sovétríkjanna, í Reykjavík árið 1986, þar sem afvopnunarmál þjóðanna tveggja voru rædd.

Það eru stórleikararnir Michael Douglas og Christoph Waltz sem fara með aðalhlutverkin, en fundur forsetanna vakti heimsathygli og um þúsund erlendir blaðamenn komu hingað til lands vegna hans.

„Við vorum með þetta verkefni hjá okkur og unnum að því fyrir Headline Pictures í London," segir Snorri Þórisson hjá framleiðslufyrirtækinu Pegasus.

„Þeir náðu ekki að loka fjármagninu fyrir þann tíma sem þeir höfðu leikarana lausa, en sá gluggi sem þeir höfðu var afar lítill. Nú er búið að búa til nýjan glugga fyrir þetta verkefni í febrúar á næsta ári og vonandi ná þeir þá að vera með peninginn til reiðu."

Snorri gerir ráð fyrir að lítið breytist þrátt fyrir frestunina.

„Það getur auðvitað margt breyst á einu ári en það er allavega gert ráð fyrir sama leikstjóra og sömu aðalleikurum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×