Enski boltinn

Höfum ekki efni á að hafa Carroll á bekknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brendan Rodgers hefur gefið í skyn að Andy Carroll eigi ekki afturkvæmt í lið Liverpool en líklegast verður að teljast að hann verði seldur í sumar.

Carroll er nú lánsmaður hjá West Ham en hann kom til Liverpool frá Newcastle á sínum tíma fyrir 35 milljónir punda. Hann átti þó erfitt með að festa sig í sessi hjá Liverpool.

„Okkar lið er byggt upp í kringum Luis Suarez og hæfileika hans. Hver leikmaður hefur sinn stíl og svo er spurning hvernig hann passar í liðið. Suarez hefur blómstrað í því hlutverki sem við höfum gefið honum í vetur," sagði Rodgers við enska fjölmiðla.

„Það þarf því að leika á ákveðinn hátt til að ná því besta úr leikmönnum. Það er enginn vafi á því að Andy hefur sína hæfileika eins og sést á þeim mörkum sem hann hefur skorað eftir föst leikatriði með West Ham."

„Hann kom hingað fyrir himinháa upphæð og það var ekki honum að kenna. En félagið hefur ekki efni á að vera með slíkan leikmann á bekknum, miðað við kaupverð hans og laun."

„Hann hefur sjálfsagt ekki spilað jafn mikið eins og hann sjálfur eða West Ham hafa kosið en verðmiðinn á honum er hár og við verðum að taka tillit til þess. Við skulum sjá hvað gerist í sumar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×