Enski boltinn

Mancini: Ómögulegt að vinna aftur 6-1

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli fagnar marki á Old Trafford í október 2011.
Mario Balotelli fagnar marki á Old Trafford í október 2011. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester-liðin mætast á Old Trafford á morgun en þar getur Manchester United náð 18 stiga forskot á City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta þegar aðeins 21 stig er eftir í pottinum.

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, var spurður út í leik liðanna á Old Trafford á síðasta tímabili þar sem City-liðið vann ótrúlegan 6-1 sigur.

City vann ensku deildina á endanum á markatölu en það munaði átta mörkum á liðunum. United hefði því orðið meistari ef City hefði bara unnið þennan leik með einu marki.

„Það er ómögulegt að vinna aftur 6-1. Það er eitthvað sem gerist bara einu sinni á hundrað árum. Við eigum ekki skilið að vera fimmtán stigum á eftir United. Þeir eiga skilið að vera á toppnum en þetta er ekki "rétt" tafla. Okkar markmið er að minnka þennan mun í síðustu átta leikjunum," sagði Roberto Mancini.

Manchester United er búið að spila 18 deildarleiki í röð án þess að tapa og liðið hefur unnið sextán þeirra. Síðasta deildartap United-liðsins kom á móti Norwich í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×