Innlent

"Finnst kennitalan ónýt og ekki hjálpar til hvað ég er feit"

„Mér finnst það skipta máli hvað ég er orðin gömul, mér finnst til dæmis kennitalan mín vera ónýt. Og ekki hjálpar til hvað ég er feit. Ég fer í blóðprufur reglulega og er rosalega hraust - það er ekkert að mér," segir María Líndal Jóhannsdóttir, fimmtíu og tveggja ára atvinnulaus þriggja barna móðir í Reykjanesbæ.

María var í viðtali í þættinum Stóru málin á Stöð 2 í kvöld.

María hefur verið atvinnulaus frá því í júlí í fyrra eftir að hún kom heim úr námi erlendis í byggingarfræði. Áður starfaði hún á Verkfræðistofu Suðurnesja sem tækniteiknari.

„Ég átti ekki von á því að þurfa að bíða svona lengi eftir atvinnu á ný," segir María sem hefur verið atvinnulaus í níu mánuði. „Það líður ekki sú vika að ég sæki ekki um starf. Ég veit ekki hvort atvinnurekendur geri sér grein fyrir því hvað það er niðurdrepandi fyrir atvinnuleitanda, að fá ekki svar - ekki einu sinni: Því miður. Það er skömminni skárra en að fá ekki neitt."

„Ég er hætt að leita að starfi sem byggingarfræðingur því það vantar ekki. Þegar ég sótti um síðasta starf sem tækniteiknari þá fannst mér ég vera „over-qulified" - af því að ég er byggingarfræðingur líka. Svo kemur: Því miður, þú varðst ekki fyrir valinu. Og svo er starfið auglýst aftur! Hvað er í gangi? Er verið að leita að einhverri sérstakri manneskju í þetta starf? Er verið að leita að frænku sinni? Er ég of feit? Er ég of leiðinleg?"

María segir að það taki á að vera atvinnulaus. „Það er rosalega niðurdrepandi hver einustu mánaðarmót að semja við bankann, viltu hliðra aðeins til fyrir mig?"

Viðtal við Maríu má sjá hér að ofan og þáttinn í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×