Innlent

Aldrei sannað að Guðmundur og Geirfinnur hafi verið myrtir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundar- og Geirfinnsmálið fyrir dómi.
Guðmundar- og Geirfinnsmálið fyrir dómi. Mynd/ Bjarnleifur.
Aldrei hefur verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnið við hvarf Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar, sagði Jón Steinar Gunnlaugsson þáverandi lögmaður og síðar hæstaréttardómari í grein í Morgunblaðinu. Greinina ritaði Jón Steinar í ágúst 1997, fáeinum dögum eftir að Hæstiréttur hafnaði beiðni um endurupptöku málsins.

Nokkur ungmenni voru dæmd til fangelsisvistar árið 1980 fyrir morð á Guðmundi og Geirfinni sem hurfu báðir árið 1974. Sem kunnugt hvatti nefnd á vegum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sem fjallaði um Guðmundar- og Geirfinnsmálin, til þess að málin verði tekin upp að nýju. Játningar sakborninga hafi ýmist verið óáreiðanlegar eða beinlínis falskar. Hæstiréttur hafnaði endurupptökubeiðni árið 1997. Í grein sinni sem Jón Steinar ritaði víkur hann að játningum sakborninganna.

Hann segir meðal annars að játningar einar geti ekki falið í sér fullnægjandi sönnunarfærslu í sakamálum. „Þær hljóta að þurfa að styðjast við önnur "áþreifanlegri" sönnunargögn til að verða lagðar til grundvallar dómi. Margt var athugavert við þessar játningar," segir hann.

Þá spyr Jón Steinar hvernig hafi getað staðið á því að enginn sakborninga hafi getað bent á hvar a.m.k. annað líkið væri að finna, að því gefnu að játningarnar væru réttar. Sakborningarnir hafi gefið ýmsar skýringar á þessu en engar þeirra hafi reynst réttar þegar líkanna var leitað. Jón Steinar spyr hvort játningarnar hafi verið trúverðugri en þessar frásagnir af staðsetningu líkanna. „Í raun og veru hefur aldrei verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnin við hvarf þessara tveggja manna. Fjöldi fólks hefur horfið á undanförnum áratugum á Íslandi án þess að skýringar hafi fundist. Mér finnst eins standa á um þessa tvo menn," sagði Jón Steinar í greininni.

Grein Jóns Steinars má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×