Enski boltinn

ÍBV mætir Portsmouth þann 16. apríl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David James og Hermann Hreiðarsson.
David James og Hermann Hreiðarsson. Nordic Photos / Getty Images
Portsmouth hefur tilkynnt að liðið muni leika góðgerðarleik gegn ÍBV á heimavelli sínum, Fratton Park, þann 16. apríl næstkomandi.

Allur ágóði af leiknum mun renna til sjóðs stuðningsmanna félagsins sem hefur fjárfest í félaginu sjálfu. Portsmouth hefur undanfarin ár lent í miklum fjárhagsvandræðum og leikur nú í ensku C-deildinni.

Hermann spilaði alls 123 leiki með Portsmouth á sínum tíma og varð enskur bikarmeistari með félaginu árið 2008. Hann tók við ÍBV í haust er hann sneri aftur til Íslands úr atvinnumennsku.

Stjórnarformaðurinn Ashley Brown segir að Hermann hafi haft frumkvæði að leiknum. „Þetta er frábært tækifæri fyrir stuðningsmenn að kveðja Hermann sem reyndist félaginu svo vel. Þetta er einnig tækifæri til að styrkja fjárhag þess þar sem hverri einustu krónu sem kemur inn í kassann verður fjárfest í félaginu."

„Það er því hægt að eignast hlut í félaginu einfaldlega með því að kaupa miða á leikinn," sagði Brown.

Svo gæti farið að David James muni spila með ÍBV í þessum leik en hann var samherji Hermanns hjá Portsmouth á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×