Innlent

Bannað að mismuna eftir trúarbrögðum

Ásdís Halla Bragadóttir, Sjálfstæðismaður og fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, segir að Landsfundur flokks síns þurfi að afturkalla ályktun um kristin gildi sem samþykkt var á fundinum í gær.

Í ályktuninni, sem allsherjar- og menntamálanefnd fundarins lagði grunn að í gær, segir að „kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr". Mikilvægt sé að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) til þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.

„Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við."

Ásdís Halla var ekki viðstödd umræðu um ályktunina á fundinum í gær. Hún hafði hins vegar lesið fréttir af henni í fjölmiðlum og tjáði sig á Facebook í kjölfarið.

„Í sjálfri stjórnarskránni er lagt bann við því að fólki sé mismunað eftir trúarbrögðum. Ályktun þar sem kveðið er á um það að ,,kristin gildi ráði við lagasetningu" stenst ekki stjórnarskrá og hana þarf Landsfundur Sjálfstæðisflokksins að afturkalla með afgerandi hætti!"

Í 64. grein Stjórnarskrár segir:

Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna...

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar (félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, lagði til á fundinum í gær fyrir hönd ungra Sjálfstæðismanna að setningin varðandi kristin gildi yrðu felld niður. Var breytingartillagan lögð fyrir fundinn en felld eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi frá fundinum sem Lára Hanna Einarsdóttir tók saman.

Áslaug Arna ítrekaði skoðun sína á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hún sagðist vera hneyksluð á ályktun fundarins.

„Lagasetning á aldrei að taka mið af trúarbrögðum og þingmenn eiga alltaf að vera þingmenn einstaklinga ekki trúarbragða."Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.