Innlent

Of fáar leikkonur til þess að tilnefna fimm

Boði Logason skrifar
Brynhildur Ólafsdóttir, kynnir tilnefningarnar í Bíó Paradís í dag.
Brynhildur Ólafsdóttir, kynnir tilnefningarnar í Bíó Paradís í dag. Mynd/Stöð 2
Þrjár konur eru tilnefndar sem leikkona ársins í aðal- og aukahlutverkum á Edduverðlaununum árið 2013. Í sömu flokkum hjá körlunum eru fimm leikarar tilnefndir.

Brynhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Eddunnar 2013, segir að í ár hafi einfaldlega færri nöfn leikkvenna borist en karla. „Ef að innsend verk, nöfn í þessu tilviki, í flokkinn eru 10 eða fleiri, þá eru tilnefningarnar fimm. Ef innsendingarnar eru færri en tíu, þá eru tilnefningarnar þrjár," segir hún.

Vegna þessarar reglu voru of fáar leikkonur sem komu til greina til þess að tilnefna fimm. „Ég held að þetta sé í fyrsta skiptið sem þetta kemur upp í þessum tveimur flokkum hjá leikkonunum," segir hún.

Það hafi ekki verið margar íslenskar myndir framleiddar í fyrra, en þær sem voru framleiddar hafi verið svolítið karllægar.

„Það voru fjórar alíslenskar kvikmyndir framleiddar á síðasta ári og tvær eru Djúpið og Svartur á leik. Það var til dæmis engin aðalleikkona í Djúpinu eða í Svörtum á leik. Djúpið fjallar um sjóskaða og flestir sjómenn eru karlar og Svartur á leik fjallar um undirheima Íslands," segir hún, sem dæmi.

Tilnefndar leikkonur í aðalhlutverki: Elin Petersdóttir fyrir Stars Above, Sara Dögg Ásgeirsdóttir fyrir Pressu 3 og Anna Gunndís Guðmundsdóttir fyrir Frost.
„Ég held að þetta sé tilfallandi að þetta leggist svona núna, ég vona að þetta skýrist af þessu. Það er eina skýringin sem mér dettur í hug," segir hún.

Af tuttugu og tveimur flokkum á hátíðinni í ár, eru tíu flokkar þar sem þrír eru tilnefndir.

„Þetta gengur yfir allt saman. Það væri mjög óeðlilegt ef til dæmis það væru sex innsend nöfn og fimm eru tilnefnd," segir hún.

Sjá má tilnefningarnar hér.

Tilnefndar leikkonur í aukahlutverki: Arndís Hrönn Egilsdóttir fyrir Pressu 3, María Birta Bjarnadóttir fyrir Svartur á leik og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir fyrir Djúpið.

Tengdar fréttir

Djúpið, Frost og Svartur á leik tilnefndar til Eddunnar

Kvikmyndirnar Djúpið, Frost og Svartur á leik eru allar tilnefndar til Edduverðlaunanna en tilnefningarnar eru kynntar í Bíó Paradís núna. Alls voru 102 verk sem keppa um Eddutilnefningar í ólíkum flokkum. Þar af eru 17 heimildarmyndir, 60 sjónvarpsefnisverk og 25 verk í leiknu efni. Edduverðlaunin fara fram í Hörpunni þann 16. febrúar og verða þau í opinni dagskrá á Stöð 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×