Innlent

Mannshvörfin fá sterk viðbrögð

Helga Arnardóttir. Mynd/Valgarður
Helga Arnardóttir. Mynd/Valgarður
"Ég hef fengið afskaplega sterk viðbrögð. Þetta er átakanlegt mál og fólki fannst mjög erfitt að horfa á þetta," segir sjónvarpskonan Helga Arnardóttir um fyrsta þáttinn af Mannshvörf á Íslandi. Þar fjallaði hún um mál tveggja unglingsdrengja í Keflavík sem hurfu sporlaust fyrir nítján árum. "Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla þjóðina að vita af þessu máli, þótt kannski fáist engin svör við því. Það er mikilvægt til að heiðra minningu drengjanna og votta að þeir voru til." Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér á sjónvarpsvef Vísis. Í öðrum þætti fjallar Helga um mannshvarf sem varð á Snæfellsnesi 1974. Þá hvarf hinn 79 ára Bjarni Matthías Sigurðsson þegar hann var í berjamó með dóttur sinni og tengdasyni. "Þetta var sama ár og Geirfinnur og Guðmundur hurfu. Það var lítið fjallað um þetta mál en allt samfélagið á Snæfellsnesi lagðist bara niður. Það voru svo margir sem tóku þátt í leitinni," segir Helga. "Þriðja kynslóð ættingja og afkomenda hans lifir enn í voninni um að það muni einhvern tímann fást svör við þessu hvarfi." Hún segir þætti sína mikilvæga til að kveða niður kjaftasögur sem fara af stað þegar mannshvarf verður. "Sumir hafa fagnað umfjöllun minni út af því, því þessar kjaftasögur geta verið mjög meiðandi fyrir ættingjana."
Bjarni Matthías Sigurðsson hvarf þegar hann var í berjamó með dóttur sinni og tengdasyni.
.

Tengdar fréttir

Um 110 Íslendingar hafa horfið á síðustu fjórum áratugum

Á síðustu fjórum áratugum hafa um 110 Íslendingar horfið. Sjórinn hefur tekið meirihluta þessa hóps, eða yfir sjötíu manns. Eitt af óútskýrðum mannshvörfum er mál tveggja drengja sem hurfu sporlaust í Keflavík fyrir nítján árum.

Dularfull ljósmynd vekur upp spurningar um mannshvarf

Hann rifjaðist upp fyrir mér þessi löngu týndi maður sem aldrei fannst, segir Jón Haukur Jóelsson, sem rakst á dularfulla ljósmynd þegar hann kom heim úr ferðalagi um Snæfellsnesið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×