Innlent

Starfsmannastjóri WikiLeaks hakkaði sig inn í stjórnarráðið

Viðmælandi BBC, Siggi, segist hafa fyrst hakkað sig inn í stjórnaráðið árið 2004 og að föður sínum hafi verið kennt um innbrotið.
Viðmælandi BBC, Siggi, segist hafa fyrst hakkað sig inn í stjórnaráðið árið 2004 og að föður sínum hafi verið kennt um innbrotið.
Siggi, eða Q eins og hann segist hafa verið kallaður þegar hann starfaði sem starfsmannastjóri WikiLeaks, segist hafa hakkað sig inn á vef stjórnarráðsins þegar hann var tólf ára gamall, eða árið 2004.

Þetta kemur fram í útvarpsþætti á BBC þar sem fjallað er um hakkara víðsvegar um heiminn. Þáttastjórnandinn ræðir þar við hinn tvítuga Sigga frá Íslandi sem segist hafa fyrst hakkað sig inn í stjórnaráðið fyrir um áratugi síðan. Hann segir að föður sínum hafi verið kennt um innbrotið.

Siggi segir feril sinn sem hakkari ekki mjög langan. Ferillinn spannar engu að síður átta ár. Siggi segist hafa hakkað sig inn í eftirlitsmyndavélar á herstöð í ónefndu landi. Spurður hvort hann hafi óttast að hann yrði handtekinn vegna innbrotanna, svaraði hann "mér leið eins og ég væri ósigrandi."

Siggi segist einnig hafa lekið gögnum í hruninu en í kjölfarið var bíll hans eyðilagður. Siggi segist hafa vitað hver það var sem eyðilagði bílinn. Hefndaraðgerðin var í frumlegri kantinum; Siggi gaf út dánarvottorð á nafni mannsins og þar af leiðandi gat hann ekki notað kennitölu sína, sem getur valdið töluverðum vandræðum hér á landi.

Siggi fullyrðir einnig að geti, ef mikið liggur við, látið fólk líta út fyrir að vera gjaldþrota.

Í viðtalinu ljóstrar þáttastjórnandi upp að Siggi hafi byrjað að vinna hjá uppljóstrunarsamtökunum WikiLeaks aðeins átján ára gamall. Þá starfaði hann sem starfsmannastjóri (e. chief of staff) og gekk þá undir nafninu Q.

Hægt er að hlusta á þáttinn á síðu BBC eða hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×