Innlent

Olíumálaráðherrann væntanlegur til landsins síðdegis

Ráðherrabústaðurinn.
Ráðherrabústaðurinn.
Olíumálaráðherra Noregs, Ola Borten Moe, er væntanlegur til Íslands síðdegis til að vera við athöfn í Ráðherrabústaðnum á morgun, þegar tvö fyrstu olíusérleyfin á Drekasvæðinu verða undirrituð.

Ráðherrann mun byrja á því að skoða orkuver HS-orku í Svartsengi áður en hann heldur til Reykjavíkur.

Klukkan níu í fyrramálið hittir hann Steingrím J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra, sem jafnframt er ráðherra olíumála, en undirritun sérleyfanna fer svo fram í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina klukkan tíu í fyrramálið. Tíu manna sendinefnd kemur með norska ráðherranum sem og nokkrir norskir blaðamenn.

Orkustofnun gefur út sérleyfin, sem gilda fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Leyfin verða annars vegar til Faroe Petroleum Norge AS, útibús á Íslandi, og Íslensks Kolvetnis ehf. og hins vegar Valiant Petroleum ehf. og Kolvetnis ehf. Norska ríkisolíufélagið Petoro verður þátttakandi í báðum leyfunum.

Í fréttatilkynningu Orkustofnunar segir að norski olíu- og orkumálaráðherrann Ola Borten Moe verði við undirritun sérleyfanna en Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri muni svara fyrirspurnum blaðamanna að lokinni undirritun leyfanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×