Enski boltinn

Martinez: Yrði eins að vinna titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Wigan, var ánægður með sína menn eftir 3-2 endurkomusigur á útivelli á móti West Brom í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Wigan varð helst að vinna leikinn til að eiga raunhæfa möguleika á að halda sér í deildinni en liðið er nú tveimur stigum frá öruggu sæti.

„Við höfum lagt mikið á okkur í tvo mánuði til að koma okkur í þessa stöðu. Það eru tvær vikur eftir af tímabilinu og við erum enn með á tveimur vígstöðum. Ef við náum að halda okkur þá væri það eins og vinna titilinn," sagði Roberto Martinez.

Wigan mætir Manchester City í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar en á eftir að spila við Swansea City, Arsenal og Aston Villa í þremur síðustu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Í dag sýndum við okkar sterka karakter og það að við gefumst aldrei upp. Það er risastórt afrek að koma tvisvar til baka á erfiðum útivelli eins og þessum. Við skoruðum líka þrjú mörk í opnum leik í dag sem er mjög ánægjulegt. Ég held að ekkert annað lið hafi náð því á þessu tímabili," sagði Martinez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×