Blofeld, sem er auðþekkjanlegur á öri í andliti og strýkur gjarnan ketti, birtist síðast í kvikmyndinni Never Say Never Again árið 1983, en hún er ekki hluti af kvikmyndaseríu MGM.
Forsaga málsins er sú að Kevin nokkur McClory höfðaði mál á hendur Ian Fleming, höfundi skáldsagnanna um James Bond, eftir að Fleming studdist við handrit sem hann skrifaði í samstarfi við McClory við gerð bókarinnar Thunderball.
Í kjölfarið var McClory titlaður meðframleiðandi kvikmyndarinnar Thunderball og reyndist það framleiðendum myndanna erfitt að nota persónuna án samþykkis McClory. Til dæmis var Blofeld aldrei nefndur á nafn í kvikmyndinni For Your Eyes Only frá árinu 1981, en í myndinni fleygir Bond persónu sem líkist Blofeld niður í reykháf.
Nú hafa framleiðendurnir komist að samkomulegi við fjölskyldu McClorys, en hann lést árið 2006. Fjölskyldan hefur selt MGM-kvikmyndaverinu réttinn að Thunderball og opnast þar með á þann möguleika að nota persónu Blofelds á ný.
Blofeld og aðstoðarkona hans myrtu eiginkonu James Bond í kvikmyndinni On Her Majesty's Secret Service frá árinu 1969. Atriðið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.