Innlent

Ólafur ók sjálfur á fundinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frambjóðendur til forseta Íslands samankomnir í Iðnó í kvöld.
Frambjóðendur til forseta Íslands samankomnir í Iðnó í kvöld.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ók sjálfur á fund Stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í kvöld. Hann nýtti sér því hvorki bíl, né bílstjóra forsetaembættisins. Hann sagði að með þessu væri hann að greina störf sín sem forseta Íslands frá störfum sínum sem frambjóðanda.

Ólafur var spurður að því hvort honum þætti ekki eðlilegt að taka frí frá embættinu á meðan hann væri í framboði til endurskjörs. „Ég teldi að það væri ekki eðlilegt, enda tíðkast það ekki í nokkru landi," sagði Ólafur Ragnar. Hann benti jafnframt á að ráðherrar tækju sér ekki frí frá störfum þótt þeir tækju þátt í kosningabaráttu.

Hann sagði aftur á móti að sér væru sett mörk sem sitjandi forseta. „Ég keyrði sjálfur á fundinn og kom á eigin bíl. Ég notaði því ekki þá aðstöðu sem embættið veitir mér sem forseta," sagði Ólafur og Þóra Arnórsdóttir sagðist geta vottað það enda hefði hún séð hann.

Ástþór Magnússon sagði að þetta væri miklu víðtækara en svo að það einskorðaðist við forsetann. Fjölmiðlafólk ætti líka að taka sér frí áður en það færi í framboð. „En það má ekki taka þetta sem ádeilu á eina manneskju," sagði Ástþór. Kerfið væri gallað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×