Innlent

Fiskurinn dýrastur í Melabúðinni og Gallerý fiski

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á ferskum fiski í 23 verslunum vítt og breitt um landið síðastliðinn mánudag. Kannað var verð á 25 algengum tegundum af fiskmeti sem oft er á borðum landsmanna. Munur á hæsta og lægsta verði var oftast 25-75%. Lægsta verðið var oftast að finna hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi í Hafnarfirði eða í 15 tilvikum af 25. Mikil dreifing var á hæsta verðinu á milli verslanna, en hæsta verðið var oftast hjá Melabúðinni Hagamel og Gallerý fiski í Nethyl eða í 5 tilvikum af 25. Fiskbúðin Bryggjuhúsið neitaði þátttöku í könnuninni.

Fiskbúðin Trönuhrauni var næst oftast með lægsta verðið eða í 5 tilvikum af 25. Keisarinn fiskbúð og veitingastaður Grandagarði var með lægsta verðið í 3 tilvikum. Mikil dreifing var á hæsta verðinu á milli verslanna, en hæsta verðið var oftast hjá Melabúðinni Hagamel og Gallerý fiski Nethyl í 5 tilvikum af 25.

Allar 25 tegundirnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til hjá Fiskbúðinni Mosfellsbæ en næst mest úrval var hjá Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Fiskbúðinni Sjávarhöllin Háaleitisbraut og hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi eða 24 af 25. Fæstar tegundirnar voru til hjá Fylgifiskum Suðurlandbraut eða 8 af 25 og hjá Hagkaupum Kringlunni 11 af 25.

„Munur á lægsta og hæsta verði í könnuninni var frá 27% upp í 158%. Mestur verðmunur í könnuninni var á eldislaxi í sneiðum sem var dýrastur á 2.298 kr./kg. hjá Melabúðinni Hagamel en ódýrastur á 890 kr./kg. hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi en það gera 1.408 kr. verðmun eða 158%.

Minnstur verðmunur var á algengri soðningu eða roðflettri og beinlausri ýsu sem var ódýrust á 1.490 kr./kg. í Litlu Fiskbúðinni Miðvangi en dýrust á 1.890 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Sundlaugarvegi, Fiskbúðinni Hafberg Gnoðavogi, Fiskikónginum Sogavegi og Fiskbúðinni Vegamótum, en það gerir 400 kr. verðmun eða 27%.

Sem dæmi um mikinn verðmun má nefna að rauðsprettuflök sem voru ódýrust á 1.190 kr./kg. hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi og Keisaranum fiskbúð og veitingastaðnum Grandagarði en dýrust á 2.590 kr./kg. hjá Fiskikónginum Sogavegi það er 1.400 kr. verðmunur eða 118%. Fersk hrogn voru ódýrust á 690 kr./kg. hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi en dýrust á 1.490 kr./kg. hjá Fiskikónginum Sogavegi, Fiskbúðinni Hafrúnu Skipholti, Fiskbúðinni Freyjugötu og Fiskbúð Suðurlands, en það gerir 800 kr. verðmun eða 116%," segir í tilkynningu frá ASÍ.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum:

Fylgifiskum Suðurlandsbraut, Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Hafberg Gnoðavogi, Fiskikónginum Sogavegi, Keisaranum fiskbúð og veitingastað, Fiskbúðinni Hafrúnu Skipholti, Fiskbúðin Sjávarhöllin, Melabúðinni Hagamel, Fiskbúðinni Freyjugötu, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Litlu Fiskbúðinni Hafnarfirði, Fiskbúð Suðurlands, Nóatúni, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fisk Nethyl, Fiskbúðinni Hófgerði, Sjávarfagi Ísafirði, Fiskbúðin Mosfellsbæ, Til sjávar og sveita Ögurhvarfi, Samkaupum Úrval Hafnarfirði, Fiskbúðinni Vegamótum og Hagkaupum. Fiskbúðin Bryggjuhúsið neitaði þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×