Innlent

Vilja skoða hagkvæmni þess að flytja norska sjúklinga til Íslands

Norskir sjúklingar til Íslands.
Norskir sjúklingar til Íslands.
Útsendari stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Noregi vill skoða hagkvæmni þess að flytja norska sjúklinga til Íslands til að saxa á sívaxandi biðlista þar í landi.

Per Arne Olsen, varaformaður Framfaraflokksins, næst stærsta stjórnmálaflokks Noregs, var mættur á Eiríksgötuna síðdegis til að hitta forstjóra Landspítalans og fleiri. Tilgangurinn var meðal annars að kanna möguleikann á því að flytja norska sjúklinga til Íslands. Per segir 280 þúsund manns á biðlista eftir aðgerðum í Noregi og þeir bíði æ lengur.

Staðan er orðin slík að nýverið afhjúpaði TV2 í Noregi að sjúklingar væru farnir að beita ýmsum brögðum til að svindla sér ofar á listana. Per segir biðlistana eitt stærsta vandamál Noregs í dag og því telji hann skynsamlegt að leita til nágrannalanda eftir aðstoð við að stytta þá.

Norðmenn hafa áður flutt sjúklinga til útlanda í aðgerðir og Per telur líklegt að þessi hugmynd myndi njóta fylgis. Þá kveðst hann ekki horfa til Íslands vegna bágrar stöðu íslensku krónunnar. Hugmyndin snúist ekki um sparnað, heldur að koma fólki af biðlistum og aftur til vinnu. Það sé góð hagfræði fyrir Noreg og geti hjálpað öðrum ríkjum við að nýta betur aðstöðu sína og sérfræðikunnáttu.

Íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar hafa streymt til Noregs eftir hrun. Á síðasta ári hermdu fregnir að fjöldi þeirra sem sótti um leyfi til að vinna þar við heilbrigðisþjónustu hefði sjöfaldast á tveimur árum. Per viðurkennir að í því ljósi sé það vissulega kaldhæðnislegt að velta upp möguleikanum á að flytja hingað norska sjúklinga en æði margt í heilbrigðiskerfinu sé í raun kaldhæðnislegt. Hins vegar skipti það ekki máli hvers lenskir læknarnir séu, eða hvar þeir starfi, svo lengi sem sjúklingar fái meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×