Innlent

Enn fleiri vilja selja ofan í Silfru

Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson
„Ef þarna verður aftur slys er ekki boðlegt að ég, sem þjóðgarðsvörður, og Þingvallanefndin sem ábyrgðaraðilar fyrir þessum þjóðgarði, segjum við lögregluna að okkur komi ekki við hvað gerist í Silfru og að menn geti bara kafað þar eins og þeir vilja,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Ólafur segir fjögur ný fyrirtæki hafa kynnt þjóðgarðinum áform um að hefja sölu á þjónustu við Silfru á næsta ári. „Þetta stefnir þá í algert öngþveiti,“ segir hann. Þetta ýti enn undir nauðsyn þess að koma á aðgangsstýringu í Silfru. „Mesta öryggismálið er að það séu ekki of margir ofan í gjánni í einu.“

Á fundi Þingvallanefndar í fyrradag lá annars vegar fyrir tillaga frá Ólafi um að fresta gjaldtöku í Silfru til 1. september og hins vegar tillaga frá köfunarþjónustunum um að fresta gjaldinu til 1. júní á næsta ári. Ólafur segir að ýtarlega hafa verið farið yfir málið en að fundinum hafi verið frestað án þess að ákvörðun væri tekin. Gert sé ráð fyrir að ræða málið áfram á mánudaginn.

Í gær átti Ólafur ásamt lögmanni Þingvallanefndar fund með lögmanni köfunarfyrirtækjanna. Ólafur segir að þar hafi verið farið yfir sjónarmið í málinu og stöðu þess. „Við leggjum áherslu á að ná aftur upp góðum samstarfsanda,“ segir þjóðgarðsvörður.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×