Innlent

Ný vinnsla hefst í Bolungarvík

Nú færist aftur líf í gamla fiskvinnsluhúsið þar sem stórveldið Einar Guðfinnsson malaði gull á sínum tíma.
Nú færist aftur líf í gamla fiskvinnsluhúsið þar sem stórveldið Einar Guðfinnsson malaði gull á sínum tíma. mynd/halldór sveinbjörnsson
Vinnsla hefst á ný í fiskvinnsluhúsinu í Bolungarvík í næstu viku. Þetta sögufræga fiskvinnsluhús, sem áður var í eigu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Einar Guðfinnsson hf., hefur staðið tómt frá því að Bakkavík lagði upp laupana á vormánuðum 2010.

Það er fyrirtækið Kampi sem keypt hefur þetta risahúsnæði og mun hefja þurrkun á rækjuskel þar í næstu viku og síðan fiskvinnslu síðsumars. „Síðan erum við opnir fyrir því að fá þangað inn litlar fiskvinnslur með sinn rekstur, það væri bara gott fyrir svæðið,“ segir Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður fyrirtækisins.

Opnað var fyrir tilboð í vinnsluhúsið síðastliðið haust en það var ekki fyrr en í byrjun júní sem gengið var frá kaupunum. „Þetta er risa hús, mér er sagt að loftræstikerfið þar sé stærra en í Leifsstöð en þó er saga þess mun stærri,“ segir Jón. Hann segir enn fremur að það sé mikið verk að taka húsið í gegn þar sem það var farið að láta verulega á sjá.

Kampi er í eigu fyrirtækisins Birnis sem hefur um hundrað og tuttugu manns í vinnu, gerir út þrjá togara og rekur rækjuvinnslu á Ísafirði.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×