Innlent

Kaldhæðnislegt ef femínistar myndu krefjast afsagnar Jóhönnu

BBI skrifar
Steinunn Rögnvaldsdóttir.
Steinunn Rögnvaldsdóttir.
Það væri afar kaldhæðnislegt ef Femínistafélag Íslands kallaði eftir afsögn fyrsta kvenkyns forsætisráðherra íslands þegar ráðherrar hafa brotið jafnréttislög á undan henni og komist upp með það án þess að þurfa að segja af sér. Þetta segir Steinunn Rögnvaldsdóttir, ráðskona feministafélagsins.

Á miðvikudaginn var komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði brotið jafnréttislög þegar hún skipaði karlmann sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu og gekk þar með fram hjá fjórum jafnhæfum konum við skipunina.

Steinunn dregur ekki dul á að alvarlegt sé þegar forsætisráðherra brýtur jafnréttislög. Þar að auki telur hún viðbrögð Jóhönnu við niðurstöðunni frekar slæm. Hins vegar bendir hún á að ljósið í myrkrinu sé að Jóhanna baðst afsökunar í Fréttablaðinu í dag. Það finnst Steinunni merki um auðmýkt.

Steinunn segir sorglegt hve algengt er að ráðherrar brjóti jafnréttislög. Hún nefnir tvö dæmi um ráðherra máli sínu til stuðnings, annars vegar þegar Björn Bjarnason gekk fram hjá hæfnismati og hins vegar þegar Árni Magnússon braut jafnréttislög.

Steinunn býst ekki við að Femínistafélag Íslands álykti um brot Jóhönnu á jafnréttislögunum. Hún minnir á að félagið ályktar ekki um allt sem kemur fyrir í jafnréttisbaráttunni. Steinnunn var í viðtali í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×