Innlent

Marorka fundaði með Cosco Group

Marorka hefur þróað orkustjórnunarkerfi fyrir skip sem getur sparað rekstraraðilum skipa umtalsverða fjármuni. Kerfið hefur þegar verið innleitt í á þriðja hundrað skipa, þar á meðal skipum Eimskips.
Marorka hefur þróað orkustjórnunarkerfi fyrir skip sem getur sparað rekstraraðilum skipa umtalsverða fjármuni. Kerfið hefur þegar verið innleitt í á þriðja hundrað skipa, þar á meðal skipum Eimskips. Fréttablaðið/GVA
Íslensk sendinefnd skipuð fulltrúum úr utanríkisþjónustunni og starfsmönnum Marorku fundaði í síðustu viku með stjórnendum kínverska skipafélagsins Cosco Group. Á fundinum var rætt samstarf milli Marorku og Cosco sem er eitt stærsta skipafélag heims.

Fundurinn fór fram þann 11. október síðastliðinn í höfuðstöðvum Cosco í Peking í Kína. Þau dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku, og Kristín Árnadóttir, sendiherra Íslands í Kína, leiddu íslensku sendinefndina en Wei Jiafu, stjórnarformaður Cosco, tók á móti þeim.

Marorka fagnaði fyrr á þessu ári tíu ára starfsafmæli fyrirtækisins en helsta vara þess er orkustjórnunarkerfi í skip sem byggir á doktorsverkefni Jóns Ágústs. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum sett upp kerfi sitt í á þriðja hundrað skipa en það hefur vaxið hratt á síðustu misserum.

Cosco er stærsta skipafélag Kína og hið sjötta stærsta í heimi sé tekið mið af fjölda flutningaskipa. Á það ríflega 130 skip.

- mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×