Innlent

Jón Hákon: Kosningabaráttan alveg hræðilega leiðinleg

Jón Hákon Magnússon.
Jón Hákon Magnússon.
„Mér finnst þetta hafa verið alveg hræðilega leiðinleg kosningabarátta," segir Jón Hákon Magnússon, almannatengill hjá KOM, þegar hann er spurður hvað honum hafi fundist um kosningabaráttuna fyrir forsetakosningarnar. Hann segir baráttuna hafa verið allt of langa og bendir á að hún hafi meira eða minna staðið yfir síðan í apríl.

„Þetta ætti að vera eins og er oft erlendis þar sem menn taka þriggja til fjögurra vikna snarpa baráttu," segir hann og bætir við að orðræðan hafi að auki verið frekar innihaldslaus.

„Umræðan snérist um tæknileg smáatriði varðandi stjórnarskrána og á stundum hafði maður á tilfinningunni að frambjóðendur væru ekki sjálfir með hlutina á hreinu," segir Jón Hákon. Hann bætir við að umræðan hafi snúist of mikið um stjórnarskrána en minna um raunverulegt eðli embættsins, sem snýst um að vera leiðtogi þjóðarinnar, um framtíðina og að vera sameiningartákn að hans mati. „Það var lítið um innihald í tali frambjóðandanna," bætir hann við.

Jón Hákon segir að ákveðinn eftirhrunsbragur hafi verið á kosningunum, þar sem menn horfðu ítrekað reiðir aftur fyrir öxl.

Spurður út í einstaka frambjóðendur segir Jón Hákon að himin og haf hafi skilið á milli Þóru Arnórsdóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar, sem fengu mest fylgi samkvæmt skoðanakönnunum.

Hann segir aftur á móti að það sé ekkert undarlegt að Ólafur Ragnar mælist svona hátt í skoðanakönnunum.

„Hann er gamalreyndur stjórnmálamaður og reynslan skiptir ofboðslega miklu máli í svona aðstæðum. Hann hefur farið í gegnum margar pólitískar orrustur og miklar eldskírnir. Það er að skila honum góðu gengi núna," segir Jón Hákon.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×