Innlent

Aðsókn að leikskólum og gæslu barna jókst eftir hrun

oddný sturludóttir
oddný sturludóttir
Aðsókn að leikskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar hefur aukist eftir hrun. Ýmsir óttuðust hið gagnstæða og að bágt efnahagsástand þýddi það að margir þyrftu að neita sér um þjónustuna. Mannekla er svipuð og verið hefur undanfarin ár.

Í desember 2009 sóttu 78% reykvískra barna á aldrinum tveggja til fimm ára leikskóla borgarinnar. Það hlutfall var komið í 81% í desember 2011. Um 95% barna á þessum aldri í borginni sækja einhverja dagvistun.

„Þetta er jákvætt því margir hafa óttast að aðsókn myndi minnka í kjölfar kreppunnar, en við sjáum það ekki í þessum tölum heldur þvert á móti," segir Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Sú breyting hefur einnig orðið að börnin eru yngri þegar þau þurfa á þjónustu að halda.

„Það eru afleiðingar af breytingum á fæðingarorlofinu, fólk getur því miður ekki verið jafn lengi heima og það gat áður og það ætti að vera forgangsmál stjórnvalda að leiðrétta fæðingarorlofslöggjöfina. Tímalengd þjónustunnar hefur einnig aukist, en það þýðir aukna mönnun fyrir okkur."

Ástandið í starfsmannamálum á leikskólum er svipað og undanfarin ár. Eftir er að ráða í um níutíu stöðugildi á leikskólunum, þar af 69 stöðugildi leikskólakennara á deild. Þá vantar um það bil eitt hundrað starfsmenn á frístundaheimili.

Oddný segir starfsemi þeirra að miklu leyti byggjast á háskólanemum í hlutastarfi. Þegar stundatöflur séu tilbúnar megi gera ráð fyrir því að takist að ráða í stöðurnar. Það eigi að einhverju leyti einnig við um leikskólana.

Skortur hefur verið á menntuðum leikskólakennurum undanfarin ár og engin breyting er á því.

Börnum í mataráskrift í grunnskólum hefur fjölgað. Haustið 2010 voru 83% grunnskólabarna í mataráskrift, en 90% árið 2011. Þá hefur heimsóknum tíu til tólf ára barna í félagsmiðstöðvar og frístundaklúbba fjölgað um helming frá árinu 2009, úr 17.544 í 32.235 árið 2011. Heimsóknum aldurshópsins þrettán til fimmtán ára hefur fjölgað úr 122 þúsund í 142 þúsund á sama tímabili.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×