Innlent

Veitti manni lífshættulega áverka

Þrátt fyrir að hafa hlotið alvarlega áverka er fórnarlambið komið af sjúkrahúsi.
Þrátt fyrir að hafa hlotið alvarlega áverka er fórnarlambið komið af sjúkrahúsi. Fréttablaðið/pjetur
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir ríflega tvítugum manni sem er grunaður um að hafa veitt jafnaldra sínum lífshættulega áverka með hnífi í Höfðatúni síðastliðið laugardagskvöld.

Þolandinn fannst rænulítill utandyra um klukkan átta og var lögreglu þegar í stað gert viðvart. Hann var mikið slasaður, skorinn á baki og síðu og með stungusár á brjóstkassa og fyrir neðan herðablað. Á sjúkrahúsi kom í ljós að vinstra lunga hans var fallið saman. Hann gekkst undir aðgerð og er nú laus af spítala.

Lögregla kom auga á tvo menn, sem hún taldi viðriðna málið, við bíl í nágrenninu. Annar þeirra var handtekinn en hinn stökk á flótta. Hann hafði hins vegar slasast í átökunum og reyndist lögreglu auðvelt að finna hann með því að rekja blóðslóð sem hann skildi eftir sig. Hann var handtekinn í bakgarði skammt frá. Hann var svo leiddur fyrir dómara á sunnudag og úrskurðaður í gæsluvarðhald til fimmtudagsins 9. ágúst, grunaður um lífshættulega árás, sem getur varðað við lagaákvæði um manndráp af gáleysi.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×