Innlent

Mikið unnið úr TALIS-rannsókn hér á landi

Kennarakönnun Julie Bélanger hjá OECD segir íslensk yfirvöld hafa brugðist vel við niðurstöðum TALIS-könnunar árið 2009. Ný rannsókn hefst í vetur. FRéttablaðið/VAlli
Kennarakönnun Julie Bélanger hjá OECD segir íslensk yfirvöld hafa brugðist vel við niðurstöðum TALIS-könnunar árið 2009. Ný rannsókn hefst í vetur. FRéttablaðið/VAlli
Íslensk menntamálayfirvöld leggja mikið upp úr því að bæta skólastarf og sést það vel á þátttöku í TALIS-rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Þetta segir Julie Bélanger, forvarsmaður verkefnisins, en markmið rannsóknarinnar, sem nú er að hefjast í annað skiptið, er að varpa ljósi á aðstæður kennara, starfsumhverfi og viðhorf, til notkunar í stefnumótun. Á dögunum fór fram hér á landi vinnufundur fulltrúa frá OECD og löndunum 34 sem taka þátt að þessu sinni.

Rannsóknin fer fram með þeim hætti að allir kennarar á unglinga- og framhaldsskólastigi svara spurningalistum um starf sitt.

"TALIS er afar mikilvæg rannsókn því að þetta er fyrsta alþjóðlega verkefnið þar sem aflað er gagna til samanburðar á vinnuaðstæðum kennara og starfsemi í kennslustofum," segir Bélanger og bætir því við að með þessu sé kennurum gefin rödd til að tjá sig.

"Gögnin sem fást með TALIS gera löndum kleift að bera sig saman við önnur lönd sem fást við hliðstæðar áskoranir og læra af þeirra reynslu." Bélanger segir Ísland í nokkrum sérflokki þar sem óvíða hafi verið unnið eins mikið og markvisst með niðurstöður rannsóknarinnar árið 2009 og hér.

"Íslensk yfirvöld nýttu sér niðurstöðurnar í meiri mæli til stefnumótunar en flest önnur þátttökulönd. Sú staðreynd að Ísland tekur þátt í rannsókninni á ný sýnir jafnframt hve mikið er lagt upp úr bættum starfsháttum."

Könnunin verður gerð næsta vor og niðurstaðna er að vænta næsta sumar. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×