Innlent

Sextíu rúður brotnar á þremur vikum

Skemmdarvargurinn brýtur gjarnan margar rúður í hverju strætóskýli og notar líklega neyðarhamar til verksins.
Skemmdarvargurinn brýtur gjarnan margar rúður í hverju strætóskýli og notar líklega neyðarhamar til verksins. Fréttablaðið/Vilhelm
Um sextíu rúður í strætóskýlum hafa verið brotnar á síðustu þremur vikum, allar í eða nærri Hlíðahverfi í Reykjavík. Þetta er margfalt meira en gengur og gerist, en algengt er að fjórar til fimm rúður séu brotnar á mánuði.

„Þetta er búinn að vera faraldur undanfarnar vikur,“ segir Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri AFA JCDecaux, sem á og rekur strætóskýlin.

Hann segist viss um að sami einstaklingur sé á ferð í öllum tilvikum, og telur líklegt að hann sé með neyðarhamar eða annað oddhvasst verkfæri til að brjóta rúðurnar. Einar telur jafnframt að um ungan einstakling sé að ræða þar sem rúðurnar séu brotnar á kvöldin en ekki á nóttunni.

Hver rúða kostar um 30 þúsund krónur og tjón fyrirtækisins því að nálgast tvær milljónir króna, segir Einar. Hann segir nú í skoðun hvort taka eigi upp öryggisgæslu eða koma fyrir myndavélum til að grípa skemmdarvarginn eða vargana. Þeir sem orðið hafa vitni að skemmdarverkunum eru beðnir um að láta lögreglu vita í síma 444-1000.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×