Innlent

Sólarlagið heillar

Tveir menn renndu fyrir fisk við Sólfarið. Þeir höfðu nýlokið við að landa einum makríl þegar ljósmyndara blaðsins bar að garði.
Tveir menn renndu fyrir fisk við Sólfarið. Þeir höfðu nýlokið við að landa einum makríl þegar ljósmyndara blaðsins bar að garði. fréttablaðið/vilhelm
Íslenska kvöldsólin skartar sínu fegursta nú þegar dagurinn tekur vart enda. Landsmenn og ferðamenn fara í miðnæturferðir og fylgjast með sól síga í sæ. Strandlengjan meðfram Sæbraut og Grótta eru vinsælir útsýnisstaðir.

„Fólk sækir bæði í strandlengjuna við Sæbraut og út í Gróttu og nánast út að vitanum. Fólki finnst magnað hvað sólin er lengi á himni,“ segir Auður Halldórsdóttir hjá upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík.

Mikið af fólki hefur undanfarið safnast á útsýnisstaði á kvöldin, þar sem gott er að fylgjast með sólarlaginu. Það á jafnt við um Íslendinga og ferðamenn.

Sólfarið í Reykjavík hefur notið mikilla vinsælda sökum þessa, ásamt Gróttu og Ingólfshóli.

Auður segir töluvert um að fólk spyrji út í miðnæturferðir, þar sem hægt sé að njóta birtunnar. Hún segir ýmislegt í boði.

„Það er hægt að fara í Esjugöngu, snorklaá Þingvöllum og fara í miðnæturgolf. Þetta er allt geysivinsælt.“

Auður segir íslensku kvöldsólina einnig sérstaka. „Þessi fallega kvöldsól er sérstaða. Ef fólk ferðast um Norðurland getur það séð sólina dýfa tánum rétt ofan í sjóinn og koma svo upp hálftíma seinna. Ef þú ert í Berlín eða London þá er dimmt á þessum tíma.“

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri tekur í sama streng.

„Lega landsins og þau náttúrufyrirbrigði sem hún gefur aðgang að á himni er eitt af því sem skapar sérstöðu á Íslandi.“

Ólöf segir birtuna heilla ferðamenn.

„Fólk kemur hingað vitandi af þessum björtu sumarnóttum.“

katrin@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×