Innlent

Spornað við spóli úti á Granda

Ökumenn hafa keyrt eftir Ánanaustum og leikið sér að því að láta bíla sína spóla.
Ökumenn hafa keyrt eftir Ánanaustum og leikið sér að því að láta bíla sína spóla. Fréttablaðið/pjetur
Settar hafa verið upp hraðahindranir í Ánanaustum, en íbúar í grenndinni hafa mikið kvartað undan hávaða frá ökumönnum sem keyra þar um. „Það hefur svo sem aldrei verið neinn ofboðslegur hraði þarna, heldur aðallega hávaði vegna spóls,“ segir Kristófer Sæmundsson, varðstjóri Umferðardeildar lögreglunnar.

„Þeir geta ekki spólað með bílinn út á hlið þegar hraðahindranirnar eru. En þeir geta áfram spólað í hringtorginu,“ segir Kristófer.

Stefán Finnsson, yfirverkfræðingur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkur, segir borgaryfirvöld íhuga frekari aðgerðir á svæðinu. „Það voru uppi hugmyndir um að fræsa úr veginum svipað og er á Vesturlandsveginum, í köntum og á milli akstursstefna. Markmiðið er að draga úr viðnámi bíla sem aka ógætilega í hringtorginu,“ segir Kristófer.

Kristófer segir of snemmt að segja til um árangur hraðahindrananna. „Það er helst að maður merki það á að kvörtunum fólks fækkar og það hefur aðeins dregið úr þeim. Þannig að eitthvað virðist þetta nú virka.“- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×