Innlent

Sluppu vel eftir 40 metra fall

Fólkið féll um fjörutíu metra niður í fjöruna með þessari gríðarstóru skriðu.
Fólkið féll um fjörutíu metra niður í fjöruna með þessari gríðarstóru skriðu. mynd/grétar einarsson
Tveir ferðamenn, karl og kona, sluppu ótrúlega vel þegar brún á Lágey Dyrhólaeyjar, sem þau stóðu á, gaf sig um hádegisbil í gær.

Þau féllu um 40 metra með skriðu þegar það gerðist, en voru ofan á skriðunni allan tímann. Skriðan féll ofan í Kirkjufjöru, en fjara var þegar slysið varð.

Karlinn fótbrotnaði og konan hryggbrotnaði, en að öðru leyti hlutu þau ekki alvarleg meiðsl. Þau voru bæði lögð inn á bæklunardeild Landspítalans eftir viðkomu á bráðamóttökuna. Maðurinn fór í aðgerð vegna fótbrotsins.

Konan gat gengið til landvarðar og látið vita af atburðinum. Björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Víkverja í Vík kom fólkinu til hjálpar. „Við komust að þeim landleiðina þannig að við þurftum ekki að hífa þau upp,“ sagði Grétar Einarsson björgunarsveitarmaður við Vísi í gær.

„Þetta er ekkert annað en kraftaverk. Það er algjörlega ótrúlegt hvað þau sluppu vel,“ sagði hann jafnframt. Fólkið var á merktri gönguleið, en svæðinu hefur nú verið lokað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×