Innlent

Undirmenn borgarstjóra átta í stað átján

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Teknar voru til afgreiðslu tillögur um einföldun á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar á aukafundi borgarstjórnar í gær. Einnig var afgreidd stofnun embættis umboðsmanns borgarbúa.

Dagur B. Eggertsson, formaður stjórnkerfisnefndar borgarinnar, segir um að ræða einföldun á miðlægri stjórnsýslu; sameiningu skipulags- og byggingarsviðs, umhverfis- og samgöngusviðs og framkvæmdasviðs í umhverfis- og skipulagssvið og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Hann bendir á að á kjörtímabilinu hafi fagsviðum fækkað úr átta í fimm, skrifstofum í miðlægri stjórnsýslu fækkað úr tíu í sjö og beinum undirmönnnum borgarstjóra fækkað úr átján í átta. Þá hafi fagráðum fækkað um þrjú, auk þess sem framtalsnefnd hafi verið lögð niður.

Í bókun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins eru stjórnkerfisbreytingarnar sagðar án fjárhagslegs ávinnings, auk þess sem skort hafi á samráð við ákvarðanatökuna. „Fyrir liggur að engin hagræðing fylgir breytingunum og að öllum líkindum munu þær fela í sér aukinn kostnað fyrir borgarbúa,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti flokksins.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, gagnrýndi einnig skort á samráði við breytingarnar, sem hún sagði þó jákvæðar fyrir borgina. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×