Innlent

Ræðst í dag hvort kosið verður í júní

Ragnheiður Elín Árnadóttir formaður þingflokks Sjálfstæðismanna fór fram á atkvæðagreiðslu að lokinni umræðu um málið í fyrrinótt. Fréttablaðið/anton
Ragnheiður Elín Árnadóttir formaður þingflokks Sjálfstæðismanna fór fram á atkvæðagreiðslu að lokinni umræðu um málið í fyrrinótt. Fréttablaðið/anton
Alþingi samþykkti í gær að vísa þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskrár til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin fundaði um málið í gær og leggur meirihlutinn til talsverðar orðalagsbreytingar á spurningum sem leggja á fyrir þjóðina samhliða frumvarpsdrögunum.

Málið verður tekið fyrir á Alþingi í dag, en eigi að verða af þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum í sumar, líkt og vilji stjórnarinnar stendur til, verður að samþykkja málið fyrir miðnætti. Að öðrum kosti uppfyllir það ekki frest um slíka atkvæðagreiðslu.

Uppákoma varð á Alþingi aðfaranótt miðvikudags þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, fór fram á atkvæðagreiðslu að lokinni umræðu um málið. Þingmenn voru kallaðir út, en þegar til kom gengu Sjálfstæðismenn úr salnum og ekki voru nægilega margir þingmenn í salnum til að atkvæðagreiðslan gæti farið fram. Hún fór fram í gærmorgun og samþykkt var að vísa málinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með 42 atkvæðum. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði einn nei.

Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, var ómyrkur í máli um uppákomuna. „Klækjabrögð sem stunduð voru hér í gær til að hindra að þetta mál kæmist til nefndar voru með hreinum eindæmum eins og þessi gögn sýna og eru ekki algeng í þessum þingsal heldur þvert á móti og eru í raun ömurlegur vitnisburður um þau klækjastjórnmál sem stunduð eru hér af ákveðnum flokkum, því miður.“

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir þetta. Hún sagði Sjálfstæðismenn hafa átt að láta vita að atkvæðagreiðslu yrði óskað. „Þessi framkoma sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sýndi þarna er að mínu mati mikill dónaskapur við samþingmenn sína og svo sannarlega hvorki í anda orðræðu hennar eigin þingmanna né Alþingi til sóma.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði að það að Alþingi samþykki að málið gangi til nefndar sé að gera kröfu um vönduð vinnubrögð. „Er það ekki það sem við erum öll að kalla eftir?“ Hún sagði Alþingi gera kröfu til þess að málið fengi ítarlega skoðun og efnislega vinnu í nefndinni.kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×