Innlent

200 einstaklingar utangarðs

Um tvö hundruð manns sem koma árlega á Vog hafa sótt sér meðferð þangað áður tíu sinnum eða oftar. Flestir glíma við geðræn vandamál. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins þurfa hátt í 150 af þessum 200 frekari úrræði frá heilbrigðis- eða félagsmálayfirvöldum eftir áfengis- og vímuefnameðferðina á Vogi.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru um tíu prósent með veruleg andfélagsleg vandamál eða hafa verið í fangelsi 2 ár eða lengur. Um 15 prósent eru með alvarlega, virka geðsjúkdóma og um 20 prósent með alvarlegar geðraskanir. Um 50 manns úr þessum hópi geta gert sér vonir um bata með leiðum sem boðið er upp á á Vogi.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir erfitt að skilgreina þann hóp sem er talinn „utangarðs". Um 40 til 50 einstaklingar sem eru í daglegri neyslu og stöðugri vímu koma árlega á Vog. Margir þeirra eiga í engin hús að venda.

„Sumir yfirgefa heimili sín, aðrir geta ekki stofnað sín eigin," segir Þórarinn. „Oftar en ekki er þetta fólk með geðræn vandamál, fíkniefnatengd vandamál eða aðra sjúkdóma sem koma í veg fyrir að fólk geti verið í sínu eigin húsnæði."

Reykjavíkurborg mun verja 40 milljónum króna í samfélagsverkefnið Borgarverði, þar sem utangarðsfólki verður veitt ýmis þjónusta. Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í velferðarráði, segir þó brýnt að auka úrræðin enn frekar. Meðal annars telur hann nauðsynlegt að endurskoða rekstur Gistiskýlisins við Þingholtsstræti 25, en áframhaldandi samstarfssamningur við Samhjálp var lagður fram á fundi velferðarráðs á miðvikudag.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×