Innlent

Skyndibílar verða jafnvel komnir á göturnar í haust

Finnur Sveinsson
Finnur Sveinsson
Bílaleigur, olíufélög og bílaumboð funduðu með fyrirtækjum sem hafa áhuga á að kaupa þjónustu skyndibíla. Aðstandendur verkefnisins segja viðbrögðin hafa verið jákvæð og bílaleigur segja verkefnið spennandi.

„Fólk er tilbúið í að skoða verkefnið betur og ég hef trú á að þetta muni ganga upp,“ segir Finnur Sveinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum og einn af aðstandendum verkefnis um skyndibílakerfi, aðspurður um fund sem nokkur stórfyrirtæki og stofnanir áttu fyrir helgi með aðilum í bílaleigugeiranum, bílaumboð og olíufélög um að koma á þess háttar kerfi hér á landi.

Framkvæmdastjóri Hertz á Íslandi segir að gangi allt eftir gæti slíkt verið komið til framkvæmda hér á landi næsta haust.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu fela þessar hugmyndir í sér að komið verði upp kerfi þar sem fólk getur leigt sér bifreið með auðveldum hætti og skömmum fyrirvara. Bæði væri um að ræða leigu til lengri og skemmri tíma jafnvel allt niður í um klukkustund, þar sem viðskiptavinur pantar bíl, sækir hann á ákveðinn stað og skilar honum þangað eftir notkun.

Hugmyndirnar eru settar fram af fyrirtækjunum, þar á meðal eru Landsbankinn, Landspítalinn, Advania, Reykjavíkurborg, og eru hugsaðar fyrir starfsfólk þeirra, en Finnur segir að ef hugsanlegir rekstraraðilar sjái færi á víðari markaði sé það þeirra að ákveða.

„Þarna sköpuðust jákvæðar og uppbyggilegar umræður. Menn voru einmitt að spyrja réttu spurninganna til að fá á hreint hvað þurfi til að þetta verkefni komist af stað.“

Finnur sagðist trúa því að fundurinn hafi komið skyndibílaverkefninu á góðan rekspöl.

„Það er jákvæðni í garð verkefnisins. Hvenær af verður er erfitt að segja, en ég held að við tökum næstu skref fljótlega og ræðum þá enn betur við þá sem vilja koma að þessu.“

Finnur segir aðalmálið nú að fá á hreint hversu stór markaðurinn gæti verið utan aðstandendahópsins og það verði metið í framhaldinu.

Sigfús B. Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz bílaleigu, segir í samtali við Fréttablaðið að þeim hafi þótt hugmyndin spennandi þó markaðurinn hér á landi sé að vísu nokkuð lítill.

„En Hertz er með svipað kerfi erlendis þar sem notast er við sambærilegar tæknilausnir,“ segir Sigfús og þess vegna gæti undirbúningurinn tekið skemmri tíma ef af yrði.

„Það er engin spurning um að þetta er spennandi verkefni. Það þarf enn nokkurn undirbúning, en ég get alveg séð það fyrir mér að ef allt gengur upp gætum við byrjað þetta með haustinu.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×