Innlent

Vill alhliða lög gegn mismunun

Thomas Hammarberg.
Thomas Hammarberg.
Ísland þarf alhliða lög gegn mismunun og óháða jafnréttisnefnd til þess að hrinda ákvæðum laganna í framkvæmd. Þetta sagði mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Thomas Hammarberg, að lokinni tveggja daga heimsókn til Íslands.

Hann kynnti sér meðal annars mismunun og umbætur á jafnréttislöggjöf þar sem horft er til jafnréttis kynjanna, þjóðernisuppruna, kynþátta, einstaklinga með fötlun, aldraðra, réttinda samkynhneigðra og transfólks.

Hammarberg segir gildandi lög veita þessum hópum misgóða vernd, ofbeldi gegn konum sé viðvarandi vandamál og herða þurfi baráttu gegn mansali.

Mannréttindafulltrúinn segir yfirvöld þurfa að grípa til sérstakra aðgerða til þess að koma í veg fyrir fátækt sem kunni að vera að aukast meðal einstaklinga með fötlun, einstæðra foreldra, aldraðra og innflytjenda.

Fulltrúinn nefnir að á Íslandi megi merkja ótta við útlendinga og múslíma í umræðum á netinu og í öðrum miðlum.

Það er skoðun mannréttindafulltrúans að sjálfstæði dómskerfisins hafi aukist og nefnir hann sérstaklega umbætur á skipan dómara. Fjárframlög til ákæruvaldsins eru ekki í samræmi við málafjölda, að því er Hammarberg segir.-ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×